Enski boltinn

Derby stefnir á lélegustu markaskorun allra tíma

Nordic Photos / Getty Images

Lið Derby County hefur ekki riðið feitum hesti á fyrsta ári sínu í ensku úrvalsdeildinni í vetur og hefur aðeins skorað 0,46 mörk í leik það sem af er. Haldi liðið áfram á sömu braut fram á vorið mun það setja met yfir lélegustu markaskorun í sögu ensku knattspyrnunnar.

Metið á lið Loughborough sem lék í næstefstu deild á Englandi leiktíðina 1899-1900 þegar það skoraði aðeins 0,53 mörk að meðaltali í leik.

Sunderland á metið yfir fæst mörk skoruð að meðaltali frá stofnun úrvalsdeildarinnar en það var sett leiktíðina 2002-03 og var 0,55 mörk að meðaltali í leik. Það er jafnframt þriðji lélegasti árangur allra tíma í markaskorun í deildakeppni á Englandi.

Ljóst er að Derby þarf að skora 8 mörk í síðustu 10 leikjum sínum til að slá ekki óeftirsóknarvert met Sunderland frá því fyrir sex árum. Derby hefur aðeins skorað 13 mörk í 28 úrvalsdeildarleikjum sínum á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×