Innlent

Aðlögun án ESB aðildar gæti tekið 20 ár

Fyrir höndum er mjög langt aðlögunartímabil fyrir Ísland. Ferlið gæti tekið 10-20 ár ef Íslendingar ganga ekki í ESB. Þetta sagði Hannes Smárason , athafnamaður í Markaðnum á Stöð 2. Hann segir að tímalengd efnahagskreppunnar muni ráðast af þeim ákvörðunum sem núna verði teknar.

Þá segir Hannes að mikilvægt sé að skoða flæði gjaldeyris og hvernig krónan veiktist. Skoða þurfi hvernig einstök fyrirtæki hafi tekið stöðu í krónunni. Hann segir að þessar upplýsingar liggi allar fyrir inni í skilanefndum bankanna og hann telji rétt að þær komi þaðan. Þá sé hægt að sjá hvort innlendir eða erlendir aðilar hafi tekið stöðu gegn krónunni. Það sé nauðsynlegt að reyna að fá allan sannleikann fram í þessu máli.

Hannes segir að ýmsa hluti varðandi fall bankanna þurfi að varpa betri sýn á. Til dæmis hafi fjölmargir af íslensku bönkunum verið í viðskiptum við Evrópska seðlabankann og Evrópski seðlabankinn hafi tekið ákvarðanir sem hafi haft alvarlegar og neikvæðar afleiðingar fyrir íslensku bankana. Til dæmis hafi veðköll í endurhverfum viðskiptum haft mjög neikvæð áhrif á síðustu metrunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×