Íslenski boltinn

Umfjöllun: Valsmenn skoruðu fimm mörk

Atli Sveinn Þórarinsson, fyrirliði Vals, tekur við Atlantic-bikarnum eftir sigur Vals í gær.
Fréttablaðið/Arnþór
Atli Sveinn Þórarinsson, fyrirliði Vals, tekur við Atlantic-bikarnum eftir sigur Vals í gær. Fréttablaðið/Arnþór

Íslandsmeistarar Vals unnu 5-2 sigur á Færeyjameisturum NSÍ í Atlantic-bikarnum í Kórnum í gær.



Gestirnir áttu fyrsta færið eftir rólega byrjun en Valsmenn skoruðu fyrsta markið eftir 33 mínútur. Guðmundur Benediktsson komst í gegn, lék á markmanninn og sendi boltann fyrir markið þar sem Birkir Sævarsson renndi honum í netið. Stuttu seinna kom góð sending inn fyrir á Dennis Morthensen sem var rifinn niður og víti dæmt. Úr því skoraði Pálmi Pálmason og Valsmenn komnir í 2-0.



Eftir markið sóttu gestirnir mjög og tókst sanngjarnt að minnka muninn. Markið reyndist síðasta spyrna fyrri hálfleiksins.

Baldur Aðalsteinsson hóf seinni hálfleik með glæsilegu marki úr þröngu færi og kom Val í 3-1, og eftir það gáfust gestirnir í raun upp. Fljótlega eftir það bættu Pálmi Rafn og Dennis hvor við marki og staðan orðin 5-1 eftir 54 mínútur. Gestirnir náðu að minnka muninn í 5-2 á 82. mínútu eftir kæruleysi í vörn Vals.



„Það var mjög ánægjulegt að fá þennan leik. Það var margt jákvætt en um leið fullt af hlutum sem við getum unnið betur,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari Vals.



„Þetta var flott formleg opnun tímabilsins og þeir voru mjög erfiðir mótherjar,“ sagði Atli Sveinn Þórarinsson, fyrirliði Vals, og honum líst vel á framhaldið. „Þetta er allt að koma og æfingaferð til Tyrklands skilaði miklu. Markmiðið er Íslandsmeistaratitillinn.“- rag




Fleiri fréttir

Sjá meira


×