Íslenski boltinn

Boltavaktin á öllum leikjum lokaumferðarinnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins verður með beina lýsingu frá öllum leikjum í lokaumferð Landsbankadeildar karla en allir leikirnir hefjast klukkan 16.00.

Hægt er að fylgjast samtímis með þróun mála á Miðstöð Boltavaktarinnar, visir.is/boltavakt. Einnig má lesa nánar um gang hvers leiks fyrir sig með því að smella á viðkomandi leiki.

Mikil spenna mun ríkja í þremur þessara leikja en hinir þrír hafa litla þýðingu þar sem botnbaráttan er þegar ráðin. HK og ÍA eru fallin í 1. deildina.

Það á hins vegar enn eftir að ráðast hvort Keflavík eða FH verði Íslandsmeistari og þá munu þrjú lið, Valur, Fram og KR, berjast um þriðja sæti deildarinnar og þar með þátttökurétt í UEFA-bikarkeppninni.

Keflavík mætir Fram á heimavelli og gulltryggir sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri. Jafntefli eða jafnvel tap gæti dugað Keflvíkingum en þá aðeins ef úrslit úr leik Fylkis og FH verða liðinu hagstæð.

Keflavík er sem stendur með tveggja stiga forystu á FH á toppi deildarinnar og örlítið betra markahlutfall. Ef Keflavík gerir jafntefli þarf FH að vinna Fylki með tveggja marka mun til að vinna titilinn á markamun.

Ef Keflavík tapar dugir FH-ingum sigur og þá eru Hafnfirðingar orðnir meistarar í fjórða skiptið á síðustu fimm tímabilum.

Baráttan um þriðja sætið er eilítil flókin en hún er útskýrð í greininni hér að neðan. Valur og KR mætast innbyrðis í dag og því hart barist á Vodafone-vellinum í dag.

Þá verður Kópavogsslagur er HK tekur á móti Breiðabliki, ÍA mætir Fjölni á Skipaskaga og Þróttarar taka á móti Grindvíkingum.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×