Erlent

Viðmót eldri kvenna þægilegra

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Fimmtíu ára og eldri konur eru almennt geðbetri en þær yngri og ólíklegra að þeim sé í nöp við sér yngri konur.

Þessar góðu fréttir eru byggðar á rannsókn sem dr. Benedict Jones og aðstoðarmenn hans við Háskólann í Aberdeen framkvæmdu með því að sýna 100 konum á fimmtugs- og sextugsaldri myndir af öðrum konum. Þær voru svo beðnar að láta í ljós álit á því sem við þeim blasti. Þá kom í ljós að þær kvennanna sem komnar voru úr barneign voru mun líklegri til að fallast á að konurnar á myndunum væru aðlaðandi en hinar sem ekki höfðu náð því stigi lífsins. Frá þeim var mun frekar að vænta hrakyrða í garð myndefnanna.

Jones telur skýringuna á þessu einfaldlega vera þá að konurnar sem komnar eru úr barneign líti ekki lengur á aðrar konur sem keppinauta sína um hylli karldýra tegundarinnar. Félagslegt hlutverk eldri kvennanna sé breytt og hormónaflæðið ólíkt. Þeim sé mun meir hugað um starfsframa sinn og framgang í lífinu en að finna sér maka og hlaða niður börnum enda séu þær flestar löngu búnar að því. Ekki fylgir sögunni hvernig þeim fræðingum í Aberdeen kom í hug að kanna þetta mál en augljóst er að Jónas hafði rétt fyrir sér þegar hann orti vísindin efla alla dáð, orkuna styrkja, viljann hvessa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×