Erlent

Obama með forystuna í lykilríkjum

Nýr Bandaríkjaforseti verður kosinn eftir sex daga. Kannanir sýna að demókratinn Barack Obama hefur ýmist forskot á repúblíkananna John McCain í helstu lykilríkjum eða þá að þeir eru hnífjafnir.

Forsetar í Bandaríkjunum eru ekki kosnir beinni kosningu heldur eru það kjörmenn í hverju ríki sem velja þá. Þess vegna skiptir kjörmannafjöldi hvers ríkis sem barist er um máli.

Nýjar kannanir frá Associated Press sýna að Obama er með sjö til tólf prósenta forskot á McCain í fjórum ríkjum sem hingað til hafa verið talin örugg fyrir Repúblíkanaflokkinn, það er Ohio, Nevada, Colorado og Virginíu. Obama og McCain eru síðan jafnir í tveimur repúblíkanaríkjum til viðbótar, Norður-Karólínu og Flórída.

Kosningabaráttan er á síðustu metrunum og harkan verður meiri. Frambjóðendurnir deila helst um skattalækkanir eða hækkanir og aðstoð við millistéttina.

En þó stutt sé í kosningar er enn styttra í hrekkjavöku vestra sem er á föstudaginn. Bandaríkjamenn eru nú í óða önn að búa sig undir þá hátíð og skera myndir í grasker. Vinsælast er nú að skera út andlit þekktra stjórnmálamanna og þá helst Obama og McCain.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×