Innlent

Tilboð Landsbankans til Seðlabankans var örþrifaráð

Tilboð Björgólfs Thors og Landsbankamanna til Seðlabankans um sameiningu við Glitni - er fráleitt örþrifaráð manna sem voru í afneitun fram á síðustu stundu, segir Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði. Björgólfur hugðist með þessu gefa saman tvo dauðvona sjúklinga, hjónabandið hefði orðið stutt og þeim varla barna auðið, segir þrautreyndur bankamaður.

Björgólfur Thor sagði viðtali við Kompás á mánudaginn að þegar hann fékk pata af því sunnudaginn 28. september að til stæði að taka yfir Glitni hefði Landsbankinn snarlega sent forsætisráðherra og seðlabankastjóra tvö tilboð um sameiningu bankans við Glitni. Vandræði hans hefðu ella hröð keðjuverkandi áhrif á bankakerfið.

Björgólfur og hans menn buðu að Landsbankinn, Straumur og Glitnir yrðu sameinaðir, ríkissjóður legði til 200 milljarða króna og fengi 40% hlut í nýja bankanum. Björgólfsfeðgar í gegnum Straum og Landsbankann hefðu þá haldið rösklega 60 prósenta hlut.

Stöð 2 spurði Davíð í gær hvort þetta tilboð hefði ekki verið svaravert. Hann svaraði því ekki beint.

Fréttastofa hefur síðan á mánudag reynt að fá sérfræðinga óháða bönkunum til að meta þessi tilboð. Ekki fyrr en í dag, náðist í einn slíka, sem segir tilboðið fráleitt.

Sérfræðingur með víðtæka reynslu úr bankakerfinu sagði við fréttastofu að ef Seðlabankinn hefði svarað þessu tilboði - hefði það eingöngu verið til að fá Landsbankamenn til að skilja að ,,almannafé er ekki nein gólftuska sem nota má til að þrífa upp það sem til spillis hefur farið og eigendurnir, þeir sem helltu niður, geti að því búnu haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist."

,,Þarna sé meiningin að gefa saman tvo dauðvona sjúklinga, hjónabandið hefði orðið stutt og þeim varla barna auðið."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×