Innlent

Um 70 sagt upp hjá Formaco

MYND/Vilhelm

Formaco hefur sagt upp öllum starfssamningum, um 70 talsins, vegna samdráttar á byggingarmarkaði og erfiðleika á gjaldeyrismarkaði. Vonir standa þó til að hægt verði að ráða sem flesta starfsmenn aftur.

Félagið þjónustar byggingariðnaðinn og selur meðal annars glugga og hurðir, stálgrindarhús og steypumót. Að sögn Ragnars Jóhannssonar, framkvæmdastjóra félagsins, eru það fyrst og fremst aðstæður á markaði sem leiða til þessarar niðurstöðu ásamt slæmri stöðu á gjaldeyrismarkaði. „Það er ekki hægt að kaupa tryggingar á íslensk fyrirtæki erlendis og því er allt komið í staðgreiðslu hjá öllum birgjum," segir Ragnar og bætir við að þetta séu afleiðingar bankahrunsins hér á landi.

Ragnar segir að vegna þessa hafi forsvarsmenn Formaco talið nauðsynlegt að endurskipuleggja og aðlaga reksturinn að breyttum aðstæðum og segja upp öllum starfssamningum. Vonir standi þó til að geta ráðið sem flest af fólkinu aftur áður en uppsagnarfresturinn rennur út og þá verði einnig reynt að færa fólk til í starfi.

Aðspurður um það hvernig staðan á byggingarmarkaði á næstu misserum verði segir Ragnar að það viti enginn. „Við horfum upp á það á hverjum degi að stórir og traustir viðskiptavinir segjast ekki geta borgað okkur. Það er klippt á flesta fjármögnunarsamninga hjá verktökum sem þýðir að þeir geta ekki borgað. Þrátt fyrir að við séum mjög stöndugt fyrirtækið endar það með því að við getum heldur ekki borgað," segir Ragnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×