Innlent

Byggðasjónarmið eiga að ráða stóriðjuuppbyggingu

Smári Geirsson bæjarfulltrúi í Fjarðarbyggð, segir ekkert hafa komið út úr loforðum náttúruverndarsinna sem lofað hafi Vestfirðingum aðstoð við atvinnuuppbyggingu eftir að þeir lýstu Vestfirði stóriðjulaust svæði árið 2003. Hann telur að byggðasjónarmið eigi að ráða uppbyggingu stóriðjunnar og segir enga þörf á auknum umsvifum álvera á höfuðborgarsvæðinu.

Smári Geirsson bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð er einn ötulasti baráttumaðurinn fyrir uppbyggingu stóriðju á Austfjörðum. Hann segir uppbygginguna ganga vel, búið sé að ráða í yfir 200 störf í álverinu og enn eigi eftir að ráða í 130, en eftirsóknin sé töluvert mikil eftir störfunum.

Hann segir Austfirðinga hugsa mikið til Vestfirðinga nú þegar þeir krefjist aðgerða til að auðga atvinnulíf á Vestfjörðum. Hann minnist þess hins vegar þegar Vestfirðingar lýstu fjórðunginn stóriðjulausan og óskað eftir aðstoð náttúruverndarsamtaka við að finna ný atvinnutækifæri á Vestfjörðum.

"Náttúruverndarsamtökin tóku þessu afskaplega vel og töluðu mikið um að það væri annað að hlusta á viðhorf Vestfirðinga en viðhorf stóriðjusinnaanna fyrir Austan," sagði Smári í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag. Hins vegar hafi ekkert komið út úr þessu starfi. Ekki neitt.

Smári segir að fyrst og fremst eigi að skoða orkufrekan iðnað sem byggðamál. Fyrir utan um fjögur hundruð störf sem skapist beint í álverinu fyrir austan, muni t.d. á þriðja hundrað störf skapast í kring um álvershöfnina og hafnir í Fjarðarbyggð muni koma næstar á eftir Faxaflóahöfnum í stærð og umfangi.

"Þess vegna held ég að menn eigi að skoða það mjög vandlega hvort ekki sé skynsamlegt að fara í þessa framkvæmd á Húsavík. Og það á að vera forgangsframkvæmd að mínu viti," segir Smári.

Hann segist hins vegar ekki sjá að það sé ofboðsleg þörf fyrir mikla atvinnuuppbyggingu á suðvesturhorni landsins, þótt ef hann væri Hafnfirðingur myndi hann kjósa með stækkun álversins í Straumsvík.

"En þegar ég horfi á þetta mál, eins og ég geri yfirleitt sem landsbyggðarmaður og skoða það, þá er ég þeirrar skoðunar að það sé engin sérstök ástæða til þessarar uppbyggingar hvorki í Straumsvík né í Helguvík," segir Smári Geirsson bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×