Innlent

Samið um að draga Wilson Muuga á flot

Freistað verður þess að draga flutningaskipið Wilsons Muuga af strandstað í maí og verður hafist handa strax eftir páska að þétta skipið, samkvæmt samkomulagi sem er í burðarliðnum milli eigenda og stjórnvalda.

Skipið strandaði þann 19. desember, fimm dögum fyrir jól, og hefur því setið fast við Hvalsnes í nærri eitthundað daga. Viðræður hafa staðið yfir milli eigenda og umhverfisráðuneytisins og hyllir nú loks undir samkomulag. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 á að freista þess að draga skipið á flot og gera áætlanir ráð fyrir að undirbúningi þess verði lokið í maí. Áður þarf að þétta göt sem komu á skrokk skipsins og dæla úr því sjó. Er stefnt að því að sú vinna hefjist strax eftir páska. Bæjaryfirvöld í Sandgerði hafa ekkert heyrt af gangi viðræðna. Þau hafa þungar áhyggjur og meta stöðuna svo að menn hafi aðeins tvo mánuði til stefnu.

Útgerðin gat beitt fyrir sig lagaákvæði sem takmarkaði útgjöld hennar vegna björgunar skipsins við 72 milljónir króna. Þeir fjármunir eru þegar uppurnir að mestu. Engu að síður mun samkomulagið fela í sér að útgerðin greiði um 20 milljónir til viðbótar en ríkið og tryggingafélagið taka einnig á sig kostnað að koma skipinu á flot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×