Enski boltinn

Pizarro bendlaður við stóðlífi og fyllerí

Claudio Pizarro og félagar í landsliði Perú eru sakaðir um að halda sóðapartí
Claudio Pizarro og félagar í landsliði Perú eru sakaðir um að halda sóðapartí NordicPhotos/GettyImages

Framherjinn Claudio Pizarro hjá Chelsea er einn þeirra leikmanna hjá landsliði Perú sem sakaðir eru um stóðlífi og partístand skömmu fyrir 5-1 skell gegn Ekvador í síðasta mánuði.

Því var haldið fram í sjónvarpsþætti í Perú að Pizarro hefði ásamt félögum sínum í landsliðinu haldið mikið teiti eftir 1-1 jafntefli landsliðsins við Brasilíu þar sem hópkynlíf og mikil ölvun hafi átt sér stað fram undir morgun á lúxushóteli þar sem landsliðið gisti. Þetta kom fram í breska blaðinu Sun í morgun.

Þremur dögum síðar steinlá liðið svo 5-1 fyrir Ekvador og er í næstneðsta sæti í riðli sínu í undankeppni HM með aðeins tvö stig.

Knattspyrnusambandið í Perú ætlar að rannsaka málið eftir að þessar ásakanir komu upp og í tilkynningu frá sambandinu sagði að mikilvægt væri að hreinsa leikmennina af þessum ásökunum - því ef þær reyndust réttar, þyrftu hinir sömu leikmenn ekki að eiga von á því að klæðast landsliðstreyjunni á ný.

Forráðamenn Chelsea hafa ekki tjáð sig um málið og segja það alfarið í höndum Perúmanna.

Pizarro er 29 ára gamall og hefur spilað 45 landsleiki fyrir Perú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×