Innlent

Sex til átta bílnum bjargað ofan af Holtavörðuheiði

MYND/Stöð 2

Tvær Björgunarsveitir á Vestur- og Norðvesturlandi hafa frá því um hádegisbil í dag aðstoðað fólk sem lent hefur í erfiðleikum á Holtavörðuheiði en þar er veður vont og hefur heiðinni verið lokað vegna ófærðar.

Að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, hafa sex til átta bílar verið aðstoðaðir niður af heiðinni og mun eitthvað af bílum vera eftir. Einhver dæmi eru um að fólk á smábílum hafi lagt á heiðina en þeir eiga ekkert erindi þangað miðað við færðina. Óvíst er hvenær björgunarsveitarmenn ljúka störfum á heiðinni.

Bendir Vegagerðin fólki að fara Laxárdalsheiði eða Heydal. Á Vestfjörðum er verið að moka bæði Klettsháls og Ísafjarðardjúp og segir Vegagerðin að búast megi við einhverri snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum. Þá lokar snjóflóð Súðavíkurhlíðinni. Enn fremur er víða skafrenningur eða él á Norðurlandi og Víkurskarð er ófært.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×