Innlent

Lögregla rannsakar Strawberries

Forstjóri Útlendingastofnunar segist enga skýringu hafa á því hvers vegna konur séu fengnar frá Rúmeníu til starfa á kampavínsklúbbnum Strawberries. Auðveldara sé að fá fólk frá ríkjum innan EES-svæðisins en utan. Meti Vinnumálastofnun svo að þær þurfi atvinnuleyfi þurfa þær einnig dvalarleyfi.

Eins og greint hefur verið frá í fréttum komu hingað til lands um þrjátíu konur frá Rúmeníu á vegum Kampavínsklúbbsins Strawberries. Konurnar komu hingað til lands frá maí í fyrra til mars á þessu ári. Eiganda staðarins og Vinnumálastofnun greinir á um hvort konurnar séu hér á vinna og þurfi atvinnuleyfi eða komi sem listamenn til skamms tíma og falli þar af leiðandi undir undþáguákvæði laganna. Lögreglan kannar starfsemina á þessum stað ásamt öðrum þar sem grunur leikur á ólögmætri starfsemi. Hildur Dungal forstjóri Útlendingastofnunar segir hafa vitað af komu þessara kvenna frá því fyrra sumar. Hún segir konurnar einnig þurfa dvalarleyfi, telji Vinnumálastofnun að þær þurfi atvinnuleyfi vegna starfa sinna hér á landi.

Hún segir að fólk frá ríkjum EES svæðisins þurfi einungis dvalarleyfi hér á landi í ákveðinn tíma og geti dvalið hér á landi í allt að þrjá mánuði án atvinnuleyfis.

Rúmenía og Búlgaría gengu nýlega í Evrópusambandið en fólk þaðan þarf að sækja um atvinnu-og dvalarleyfi hér á landi eins og fólk utan EES, til ársins 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×