Innlent

Boðnar 20 milljónir króna í flýtibónus fyrir Ísafjarðarleið

Uppbygging nýs vegar um Tröllatunguheiði, á næstu tveimur árum, styttir leiðina milli Reykjavíkur og Ísafjarðar um fjörutíu kílómetra og mun væntanlega einnig valda því að Ísafjarðarumferðin hættir að fara um Holtavörðuheiði og Hrútafjörð en fer í staðinn að mestu um Bröttubrekku og Búðardal. Nýi vegurinn liggur milli Reykhólasveitar og Steingrímsfjarðar og er um 25 kílómetra langur. Verkinu skal að fullu lokið fyrir 1. september 2009. Tilboð voru opnuð í gær og átti Ingileifur Jónsson lægsta boð, upp á tæpar 662 milljónir króna, sem var 76 prósent af kostnaðaráætlun. Ljóst er að áhrif þessarar vegagerðar verða víðtækari en margur gæti ætlað við fyrstu sýn. Auk þess að efla samskipti milli Stranda og Reykhólasveitar mun nýja leiðin væntanlega skapa Dalamönnum fleiri störf við að þjónusta þá auknu bílaumferð, sem fara mun í gegn hjá þeim. Aðalleiðin milli Reykjavíkur og Ísafjarðar liggur nú um Holtavörðuheiði og Hrútafjörð og er um fimmhundruð kílómetra löng. Við opnun Tröllatunguvegar má gera ráð fyrir að Ísafjarðarumferðin færist að mestu yfir á hann og færi þá um Bröttubrekku, Búðardal og Gilsfjörð, enda er sú leið um 40 kílómetrum styttri. Hólmavík yrði eftir sem áður í vegarsambandi við Ísafjarðarumferðina. Það gæti hins breyst með jarðgöngum sem áformuð eru milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar en þá yrðu sú leið sú allra stysta milli Ísafjarðar og Reykjavíkur.

Gulrót eru í boði fyrir verktakann. Takist að opna veginn ári fyrr, eða fyrir 1. september á næsta ári, fær hann tuttugu milljónir króna í flýtibónus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×