Íslenski boltinn

Marel: Heillaði mest að fara aftur í Breiðablik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Marel Baldvinsson, leikmaður Breiðabliks.
Marel Baldvinsson, leikmaður Breiðabliks. Mynd/Hörður

Marel Baldvinsson skrifaði í dag undir þriggja ára samning við Landsbankadeildarlið Breiðabliks en hann lék síðast með Molde í 1. deildinni í Noregi.

Hann er uppalinn Bliki og lék með liðinu til ársins 2000 þar til hann gekk til liðs við Stabæk í Noregi, nítján ára gamall.

Hann lék aftur með Blikum árið 2006 en fór þá til Molde í lok ágústmánaðar.

„Mér líst ljómandi vel á þetta," sagði Marel í samtali við Vísi. „Ég skoðaði vissulega allt sem mér stóð til boða þegar ég kom heim frá Noregi en á endanum varð það Breiðablik sem freistaði mín mest. Þar þekki ég allt og alla og ég hef trú á því að það séu spennandi tímar framundan."

Breiðablik átti gott tímabil síðastliðið tímabil og hafnaði í fimmta sæti deildarinnar. Liðið þótti spila einna best í deildinni þó svo að úrslit leikja liðsins hafi ekki alltaf endurspeglað þá skoðun manna.

„Ég geri þær væntingar til næsta tímabils að Breiðablik verði í toppbaráttunni. Ég hef trú á að það sé raunhæft ef við höldum áfram að byggja á því sem vel hefur verið gert á síðustu árum."

„Við erum með marga góða og efnilega leikmenn, með góðan þjálfara og umgjörðin er alltaf að batna. Það eru spennandi tímar framundan og ég held að við verðum með nokkuð heilsteypt lið næsta tímabil."

Marel hefur átt við þrálát meiðsli í hné að stríða undanfarin ár en vonast til að hann geti klárað samninginn sem hann skrifaði undir í dag.

„Ég tek bara eitt ár fyrir í einu en ég hef fullan hug á því að taka þátt í öllum æfingum. Hvernig hnéð bregst við því verður bara að koma í ljós. En það er alveg klárt að það mætti vera betra."

Marel hefur leikið 44 deildarleiki með Breiðabliki á ferlinum og skorað í þeim átján mörk - þar af ellefu mörk í þrettán leikjum sumarið 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×