Innlent

Andstæðingar álversstækkunar eiga við ofurefli að etja

Heldur hefur dregið úr andstöðu Hafnfirðinga við stækkun álversins í Straumsvík, ef marka má nýja könnun sem Blaðið birtir í dag. Talsmaður Sólar í Straumi, sem berst gegn stækkuninni, segir andstæðinga álversins eiga við ofurafl að etja.

Í könnun sem Blaðið birtir í dag eru heldur fleiri íbúar í Hafnarfirði en áður hlyntir stækkun álversins í Straumsvík, eða 50,8 prósent en 49,2 prósent eru því andvígir. Þetta er nokkuð önnur niðurstaða en varð í könnun sem Capacent gerði fyrir Alcan í janúar en þá sögðust 51 prósent vera á móti stækkuninni og 39 prósent voru henni hlyntir. Síðan þá hefur verið stofnaður félagsskapur þeirra sem styðja stækkunina og fyrirtækið hefur beitt sér með ýmsu móti til að sannfæra Hafnfirðinga um ágæti stækkunarinnar.

"Við erum að undirbúa að kynna okkar sjónarmið fyrir bæjarbúum. Við teljum að það sé aðalatriðið að bæjarbúar taki upplýsta ákvörðun hinn 31. mars," segir Pétur Óskarsson, formaður Sólar í Straumi. Það sé hins vegar erfitt að afla fjár í baráttuna. Annars vegar séu íbúar bæjarins en hins vegar alþjóðlegt stórfyrirtæki sem sæki sér margra milljarða hagnað á Íslandi á hverju ári.

Pétur segir erfitt að fá fé til að kosta baráttuna gegn stækkuninni og stuðningur bæjarins við starf Sólar í Straumi sé sáralítill.

Okkur líður svolítið eins og við séum að fara með vasahníf í kjarnorkustríð," segir Pétur. Hann hefur engu að síður trú á því að meirihluti Hafnfirðinga muni kjósa gegn stækkun. Miklum rangfærslum hafi verið haldið á lofti í umræðunni að undanförnu sem andstæðingar stækkunarinnar eigi eftir að leiðrétta. Þá sé von á skýrslu frá Hagfræðistofnun sem muni skýra ýmislegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×