Innlent

15 mánaða fangelsi fyrir árás með hafnaboltakylfu

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjaness í dag dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa barið annan mann ítrekað með hafnaboltakylfu í höfuð og líkama og kýlt hann í hausinn þannig að hann hlaut af bæði sár og mar.

Atvikið átti sér stað á heimili fórnarlambsins í Reykjanesbæ haustið 2005 og sagðist ákærði hafa farið þangað til þess að hefna fyrir hótanir fórnarlambsins í garð vinar hans. Ákærði játaði á sig brotið og bar því við að hafa verið í mikilli neyslu á þessum tíma og allt verið í móðu.

Litið var til þess þegar refsing var ákveðin að maðurinn hafði fengið skilorðsbundna reynslulausn úr fangelsi þegar hann átti 330 daga eftir afplánaða af dómi og voru þær eftirstöðvar dæmdar með. Auk þess var maðurinn dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu liðlega 660 þúsund krónur í skaðabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×