Innlent

Flutningur í Mjódd kostaði nærri 60 milljónir króna

MYNF/E.Ól

Flutningur þeirrar starfsemi sem var í Heilsuverndarstöðinni upp í Mjódd kostaði tæplega 60 milljónir króna og ríkið greiðir ríflega 6,7 milljónir króna í leigu á mánuði á húsnæðinu þar. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur og Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þingkvenna Samfylkingarinnar.

Þær Ásta og Þórunn spurðu einnig hversu mikið truflun á starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar vegna flutninganna hefði kostað og svaraði heilbrigðisráðherra því til að að mati forstjóra Heilsugæslunnar gæti truflunin jafngilt stöðvun á vinnu í hálfan mánuð en erfitt væri að ameta kostnað vegna þess.

Eins og kunnugt er ákváðu borgin og ríkið að selja Heilsuverndarstöðina árið 2005 og fram kemur í svari heilbrigðisráðherra að ef Heilsuverndarstöðin hefði verið keypt og nýtt áfram hefði auk kaupverðs hússins þurft að greiða kostnað við viðhald og endurbætur þess.

Auk þess hefði kostnaður við flutning og vegna röskunar á starfsemi orðið a.m.k. helmingi hærri en við flutninga í Mjódd, þar sem annaðhvort hefði þurft að flytja starfsemina í bráðabirgðahúsnæði meðan framkvæmdir stæðu yfir og síðan til baka aftur eða flytja starfsemina innan húss og vinna viðhaldsverkin í minni og óhagkvæmari smáverkum.

 

Fram kemur í svarinu að ríkið hafi leigt húsnæði í Mjódd vegna starfseminnar sem sé um 4400 fermetrar að stærð og að árlegur leigukostnaður með virðisaukaskatti sé rúm 81 milljón króna. Í svarinu segir einnig að leigusamningur vegna húsnæðisins gildi til 31. ágúst 2026 og sé óuppsegjanlegur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×