Innlent

Deilt um ágæti nýrra búfjárlaga

Landbúnaðarráðherra segir að nýr sauðfjársamningur sem hann mælti fyrir á Alþingi í gær, muni bæta hag bænda, en samningurinn felur meðal annars í sér að útflutningsskylda á lambakjöti verður lögð af í áföngum. Þingmenn Samfylkingarinnar telja að samningurinn stuðli að áframhaldandi fátækt bænda.

Frumvarp til breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á landbúnaðarvörum kom til fyrstu umræðu á Alþingi í gær. Guðni Ágústsson segir að með nýjum samningi við bændur sé fyrri samningur einfaldaður til muna bændum til hagsbóta. En hann gerir m.a. ráð fyrir að útflutningsskylda bænda á lambakjöti verði afnumin í áföngum á tveimur árum. Þetta segir Björgvin G Sigurðsson þingmaður samfylkingarinnar að muni lækka verð til sauðfjárbænda, þótt hann vonaði að nýr samningur bætti hag bænda.

Björgvin G Sigurðsson þingmaður Smfylkingarinnar sagði að ekki veitti af að leiðrétta kjör bænda, sem væru með fátækustu stéttum landsins.

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra tók þessi ummæli Björgvins óstinnt upp, og sakaði Samfylkinguna um að ala á áróðri um fátækt bænda. Flokkurinn ætti að skammast sín.

Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar vildi fá að vita hvort verið væri að skuldbinda Alþingi út næsta kjörtímabil með þessum samningi, sem gildir frá 1. janúar 2008 til ársins 2013. Landbúnaðarráðherra sagði mörg fordæmi fyrir samningum mörg ár fram í tímann. Um 90% bænda hefðu samþykkt nýjan búvörusamning sem sýndi að þeir teldu samninginn vera þeim í hag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×