Innlent

Mikill hiti í jarðstreng Orkuveitunnar vegna þurrka

Jarðstrengur Orkuveitu Reykjavíkur frá Nesjavallavirkjun hefur hitnað svo mikið í þurrkunum að starfsmenn orkuveitunnar voru farnir að íhuga að vökva hann.

Rigningin í nótt og í morgun dró aðeins úr spennunni hjá Orkuveitunni.



Háspennustrengur Orkuveitu Reykjavíkur liggur að hluta til í jörð og Orkuveitan reiðir sig algerlega á raka í jarðveginum sem sér um að kæla strenginn. Í þurrkunum undanfarið hefur jarðvegurinn þornað upp með þeim afleiðingum að jarðstrengurinn hefur hitnað meira en nokkru sinni segir Tómas Guðmarsson, deildarstjóri hjá Orkuveitu Reykjavíkur.



Regnið í Reykjavík í nótt og í morgun er það fyrsta sem fellur í borginni eftir samfelldan þurrk í hálfan mánuð. Það má segja að rigningin hafi losað aðeins um spennuna hjá Orkuveitunni. Úrkomutölur frá ellefta júní eru með þeim lægstu sem sést hafa í höfuðborginni.

Starfsmenn Orkuveitunnar voru enda farnir að spá í að vökva jörðina ofan á jarðstrengnum sem liggur milli Reykjavíkur og Nesjavalla til að kæla hann niður.

Tómas Guðmarsson segir regnið kærkomið og fullyrðir að engin hætta sé á ferðum. Strengurinn hafi fulla afkastagetu þrátt fyrir hitann og þurrkana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×