Fótbolti

Englendingar ætla að hefna fyrir Hönd Guðs

Maradona skorar umdeildasta mark knattspyrnusögunnar með "Hönd Guðs"
Maradona skorar umdeildasta mark knattspyrnusögunnar með "Hönd Guðs"

Knattspyrnugoðsögnin Diego Maradona fer væntanlega fyrir liði Argentínumanna sem ætlar að endurtaka sögufrægan leik sinn við Englendinga frá HM árið 1986 á Villa Park í Birmingham í næsta mánuði. Liðin verða skipuð sömu leikmönnum og áttust við á HM í Mexíkó þar sem Diego Maradona réði úrslitum með fallegasta og umdeildasta marki allra tíma.

Leikurinn á að fara fram sunnudaginn 14. október og þar fá Englendingar tækifæri til að hefna fyrir tapið í fjórðungsúrslitunum á HM fyrir 21 ári. Argentínumenn sigruðu á mótinu forðum, en enska svíður enn þegar þeir rifja upp hvernig Maradona skoraði mark með því sem hann kallaði "Hönd Guðs." Maradona hlakkar mikið til að endurtaka þennan sögulega leik.

"Þetta er leikur sem ég man vel eftir og hugsa hlýtt til enn þann dag í dag. Þetta var líka sérstakur leikur fyrir allt liðið og lykilsigur fyrir okkur á leið okkar að heimsmeistaratitlinum. Allir tala um "Hönd Guðs" þegar talað er um þennan leik. Ég svindlaði aðeins með því að nota höndina þegar ég skoraði af því sendingin var of há fyrir mig. Félagar mínir komu ekki og fögnuðu með mér eftir að ég skoraði, en ég sagði þeim að fagna markinu strax svo að dómarinn myndi ekki dæma markið af," sagði Maradona.

Peter Reid, fyrrum landsliðsmaður Englendinga sem tók þátt í leiknum árið 1986 segir að þetta sé kjörið tækifæri til að ná sér niður á Argentínumönnunum. "Þetta er einn þeirra leikja sem fólk er alltaf að tala um og það var rosalega sárt að tapa þessum leik á einu stórkostlegu marki og einu sem var í besta falli vafasamt. Þetta er tækifæri fyrir okkur til að hefna fyrir ósigurinn. Þeir ætla að koma og spila við okkur - það er fínt - en við ætlum að vinna," sagði Reid ákveðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×