Innlent

Viðgerðum á tveimur línum Landsnets lokið

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. MYND/Vilhelm

Viðgerðum á tveimur af línum Landsnets sem biluðu alvarlega í illviðri í fyrrinótt er lokið.

Í fyrra tilvikinu brotnaði stálgrindarturn í Brennimelslínu 1 í Hvalfirði með þeim afleiðingum að truflun varð á allri stóriðju á suðvesturhorninu. Eftir því sem segir í tilkynningu Landsnets unnu starfsmenn félagsins ásamt verktökum í gærdag og í alla nótt að viðgerð á línunni og var straumur settur á hana um hálfníuleytið í morgun. Þá brotnuðu trémöstur í Geiradalslínu 1 í Saurbæ í Gilsfirði en viðgerð á henni lauk í gærkvöldi og var straumi komið á um ellefuleytið.

Viðgerðin í Hvalfirði var til muna viðameiri en sú fyrir vestan. Turninn í Brennimelslínu 1 var settur saman á útisvæði Landsnets að Geithálsi og fluttur þaðan í þremur hlutum á staðinn í Hvalfirði til frekari samsetningar og reisingar.

Stórvirk tæki voru á staðnum til aðstoðar svo sem jarðýta, kranar af stærstu gerð, spilvélar, vörubílar og beltavélar. Viðgerðin var einnig fólgin í því að tryggja frekara tjón í næstu turnstæðum, útbúa kranastæði, ásamt því að endurnýja leiðarann í næsta nágrenni við turninn.

Flutningskerfi Landsnets er því komið í samt lag að nýju en sem kunnugt er þá er spáð viðlíka veðri í dag og gekk yfir landið í fyrrinótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×