Innlent

Jólaverslun eykst mest á Íslandi af öllum norrænu ríkjunum

Áætlað er að jólaverslunin aukist um 9,4 prósent á milli ára hér á landi samkvæmt spá sérfræðinga á Norðurlöndum.

Hvergi mun jólaverslunin aukast jafnmikið á Norðurlöndum en samkvæmt útreikningum Rannsóknarseturs verslunarinnar í Svíþjóð, sem hafði yfirmumsjón með samantektinni, verður meðalvöxtur jólaverslunarinnar á Norðurlöndum tæp 7,4 prósent miðað við síðasta ár.

Minnst aukning verður hjá frændum okkar Dönum en þar mun jólaverslunin aukast um fimm prósent á milli ára samkvæmt spánni. Í fréttabréfi Samtaka verslunar og þjónustu er vitnað til þessara talna og jafnframt bent á að Íslendingar verji mestu í jólainnkaupin á mann.

Almennt er útlitið talið mjög gott fyrir jólaverslun á Norðurlöndum og vísað til þess að mikill uppgangur hafi verið í hagkerfum landanna og hvarvetna ríki bjartsýni um áframhaldandi hagvöxt á næstunni en kólnandi hagkerfi á næsta ári eftir mikið þensluskeið.

Bent er á í fréttabréfi Samtaka verslunar og þjónustu að á undanförnum mánuðum hafi mestur vöxtur verið í veltu íþróttavöruverslana og sölu á rafmagnsvörum á Norðurlöndum og gert er ráð fyrir að þessar vörur njóti töluverðra vinsælda fyrir þessi jól. Eins er spáð mikilli leikfangaverslun á Íslandi fyrir jólin í kjölfar aukinnar samkeppni vegna nýrra verslana og það sama gildir í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×