Enski boltinn

Vonbrigðin fylgja mér alla ævi

Steve McClaren og regnhlífin fræga
Steve McClaren og regnhlífin fræga NordicPhotos/GettyImages

Steve McClaren segist enn ekki vera búinn að ná sér eftir að hafa verið rekinn frá enska landsliðinu eftir lélega frammistöðu þess í undankeppni EM.

"Það er mikilvægt að knattspyrnusambandið velji besta mögulega manninn til að taka við liðinu, en í því er efniviður til að gera vel í framtíðinni þó mér hafi ekki tekist það," sagði McClaren meðal annars í spjalli við Sky í dag. Hann segist ekki vera búinn að komast yfir áfallið gegn Króötum og að vera látinn fara daginn eftir.

"Það eru ekki nema tvær vikur síðan en fyrir mér hefur þetta verið heil eilífð. Það mun taka mig góðan tíma að jafna mig á þessu, rétt eins og stuðningsmenn enska liðsins og alla þjóðina. Það mun fylgja mér alla ævi að hafa ekki náð að koma liðinu á EM," sagði McClaren.

Hann segist ætla að huga að því að koma sér aftur til starfa eftir áramótin. "Ég er maður knattspyrnunnar og hef starfað við boltann alla mína tíð. Ég vil halda því áfram og hef enn metnað til að sýna hvað í mér býr," sagði McClaren - sem náði sannarlega ekki að sýna það sem í honum bjó með enska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×