Enski boltinn

Allardyce veit að starf hans er í hættu

Sammi ræður á St. James´ Park
Sammi ræður á St. James´ Park NordicPhotos/GettyImages

Sam Allardyce, stjóri Newcastle, segist gera sér fulla grein fyrir því að hann fái ekki mikið lengri tíma til að koma liði sínu á sigurbraut eftir afleitt gengi á leiktíðinni.

Newcastle tekur á móti Arsenal í úrvalsdeildinni á miðvikudagskvöldið og nú eru farnar að berast slúðursögur af því að bæði leikmenn og stuðningsmenn Newcastle séu farnir að ókyrrast.

"Það þýðir ekkert að vera að tala í kring um hlutina - ég er kominn undir smásjána og ég verð að fara að landa sigrum hið fyrsta. Við erum að ganga í gegn um erfiða tíma núna þegar við skoðum úrslitin, en ég held að við getum komið okkur út úr ógöngunum jafn fljótt og við lentum í þeim," sagði Allardyce í samtali við breska sjónvarpið.

Bresku blöðin halda því sum fram að ef Newcastle tapar fyrir Arsenal annað kvöld - verði Allardyce rekinn og goðsögnin Alan Shearer fenginn til að taka við starfi hans.

"Ef Alan tekur við Newcastle einn daginn - vona ég að það verði ekki fyrr en ég verð búinn að bæta liðið verulega og tilbúinn að skilja við búið líkt og ég gerði þegar Sammy Lee tók við Bolton," sagði Allardyce.

Hann er tilbúinn að viðurkenna að sumir leikmanna liðsins séu ósáttir við starfsaðferðir hans, en er með einfalda lausn á því vandamáli.

"Viðræður mínar við leikmenn snúast einmitt um þetta. Leikmenn eru oft ekki sammála manni um eitt og annað, en það er ég sem er knattspyrnustjórinn og því er það ég sem veit hvað þeim er fyrir bestu. Ég veit meira en þeir og það er þess vegna sem ég er í stjórastólnum en ekki þeir," sagði Allardyce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×