Enski boltinn

Shevchenko er ekki þunglyndur

Shevchenko líður vel hjá Chelsea ef marka má Avram Grant
Shevchenko líður vel hjá Chelsea ef marka má Avram Grant NordicPhotos/GettyImages

Avram Grant hefur lýst því yfir að úkraínski framherjinn Andriy Shevchenko sé partur af framtíðarplönum sínum hjá Chelsea og á ekki von á því að versla mikið þegar janúarglugginn opnar.

Því hefur verið haldið fram að Shevchenko sé að rotna í herbúðum Chelsea þar sem hann hefur lítið fengi að spila síðan hann var keyptur á umdeildan hátt fyrir 30 milljónir punda frá AC Milan á sínum tíma.

Avram Grant segist ekki vita annað en að framherjinn sé í góðum anda.

"Ein af ástæðunum fyrir því að við höfum engar áhyggjur af Afríkukeppninni er sú að við höfum góðan og sterkan leikmannahóp til að bregðast við því þegar við missum menn í keppnina," sagði Grant, en Chelsea missir m.a. markahrókinn Didier Drogba í nokkra leiki í janúar.

"Við höfum menn eins og Shevchenko og Claudio Pizarro sem eru góðir framherjar. Þeir eru í hópnum af því þeir koma að góðum notum í janúar, en líka í þessum mánuði. Shevchenko er ekki þunglyndur og ég dæmi það út frá því sem ég sé á æfingum og í samtölum við leikmennina. Sheva er ánægður og æfir vel, en það er gefið þegar menn koma til stórliða að þeir spili kannski ekki alltaf af því samkeppnin er mikil," sagði Grant í samtali við Daily Express.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×