Enski boltinn

David Bentley er leikmaður 15. umferðar

David Bentley
David Bentley NordicPhotos/GettyImages

Vængmaðurinn David Bentley hjá Blackburn fór mikinn í 3-1 sigri Blackburn á Newcastle í úrvalsdeildinni um nýliðna helgi. Bentley skoraði tvö glæsileg mörk í leiknum og sallaði enn meiri pressu á Sam Allardyce, stjóra Newcastle.

Bentley hlaut ekki náð fyrir augum Steve McClaren landsliðsþjálfara í síðustu verkefnum enska landsliðsins í undankeppni EM, en margir vildu meina að þessi hæfileikaríki knattspyrnumaður hefði átt að fá tækifæri með liðinu.

Bentley var í fantaformi gegn Newcastle á laugardaginn og skoraði tvö glæsileg mörk. Newcastle komst reyndar yfir í leiknum þar sem öll fjögur mörkin litu dagsins ljós í síðari hálfleik.

Eftir að Obafemi Martins hafði komið gestunum yfir með skalla skömmu eftir hlé, jafnaði Bentley metin með glæsilegri aukaspyrnu. Shay Given stóð fastur í sporunum og átti ekki möguleika í markinu. Annað mark Bentley var ekki síðra - utanfótarskot af 25 metra færi. Það var svo Tugay sem innsiglaði sigur Blackburn í leiknum og tryggði liðinu fyrsta sigurinn í fimm leikjum.

"Við urðum að hafa mikið fyrir þessum sigri og fyrra markið frá David var frábært því það kom okkur inn í leikinn á ný. Annað mark hans var í raun ekki síðra, en hann hafði kannski heppnina með sér í það skiptið," sagði Mark Hughes, stjóri Blackburn eftir sigurinn.

Bentley hefur helst verið gagnrýndur fyrir að ná ekki nauðsynlegum stöðugleika til að geta talist efni í fastamann í enska landsliðinu, en Hughes telur þá möguleika fyrir hendi.

"Hann þarf bara að halda áfram að spila vel. Það sem er mikilvægast fyrir Bentley er að hann haldi áfram að spila stóra leiki fyrir enska landsliðið og til þess verður hann að ná stöðugleika. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að hann geti ekki gert það. Hann var svekktur yfir því að fá ekki að spila með landsliðinu. Ég veit að hann vill ólmur vera með og þetta hungur á eflaust eftir að fleyta honum lengra," sagði Mark Hughes.

David Bentley hóf feril sinn hjá Arsenal þar sem honum var lýst sem einum mesta efnivið í röðum félagsins og var stundum uppnefndur "Litli-Bergkamp".

Hann náði þó aldrei að festa sig í sessi hjá liðinu og var lánaður til Norwich í tvígang. Þaðan fór hann svo til Blackburn þar sem hann vann sér inn fast sæti í liðinu og var að lokum keyptur þangað árið 2006.

Nafn: David Michael Bentley

Fæddur: 27 ágúst 1984 í Peterborough á Englandi

Félög: Arsenal, Norwich (lán), Blackburn

Númer: 11




Fleiri fréttir

Sjá meira


×