Enski boltinn

Ætla að áfrýja brottvísun Keane

Keane var rekinn af velli gegn Birmingham í gær
Keane var rekinn af velli gegn Birmingham í gær NordicPhotos/GettyImages

Tottenham ætlar að áfrýja rauða spjaldinu sem fyrirliðinn Robbie Keane fékk að líta hjá Phil Dowd dómara í leiknum gegn Birmingham í gær. Dómurinn þótti nokkuð harður og spilaði nokkurn þátt í því að heimamenn töpuðu enn einum leiknum í deildinni.

Keane fór vasklega í tæklingu gegn Frakkanum Fabrice Muamba hjá Birmingham og fékk að líta beint rautt spjald. Gus Poyet, aðstoðarstjóri Tottenham, segir dómarann hafa staðið undarlega að brottvísuninni.

"Ég er fullviss um að þetta var ekki rautt spjald. Við vitum að dómarinn spurði eftirlitsdómarann um hans skoðun í kallkerfinu, en hann var ekki nema nokkra metra frá brotinu sjálfur," sagði Poyet.

Þetta var aðeins önnur brottvísun írska landsliðsmannsins á ferlinum. Hann segir sjálfur að um harðan dóm hafi verið að ræða.

"Mér fannst þetta ekki svo slæm tækling, þetta var meira árekstur. Ég er ekki grófur leikmaður og ég er mjög vonsvikinn. Sérstaklega vonsvikinn yfir því að við fengjum ekkert út úr þessum leik," sagði Keane sem skoraði tvívegis í leiknum áður en hann var rekinn af velli.

Tottenham var miklu betri aðilinn í leiknum og sótti án afláts, en gestirnir skoruðu nánast úr öllum færum sínum gegn undirmannaðri og hriplekri vörn heimamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×