Enski boltinn

Arfaslakt Newcastle malað á heimavelli

Liverpool átti náðugan dag gegn Newcastle
Liverpool átti náðugan dag gegn Newcastle AFP

Liverpool vann fyrirhafnarlítinn 3-0 útisigur á arfaslöku liði Newcastle í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Leikurinn var eins og létt æfing fyrir þá rauðu sem hefðu átt að skora sex eða sjö mörk gegn andlausu liði heimamanna.

Stuðningsmenn Newcastle bauluðu á Steven Gerrard í hvert sinn sem hann snerti boltann í upphafi leiks og sýndu þar með vanþóknun sína á lélegri frammistöðu enska landsliðsins í undankeppni EM.

Gerrard svaraði því á besta mögulega máta og kom gestunum yfir í leiknum með einum af sínum frægu þrumufleygum. Glæsilegt mark hjá landsliðsmanninum, sem er ekki sami leikmaður í treyju Liverpool og enska landsliðsins.

Fernando Torres átti stangarskot eftir að boltinn virtist hrökkva af handlegg Shay Given markvarðar og þeir Dirk Kuyt og Ryan Babel skoruðu svo annað og þriðja mark þeirra rauðu.

Fernando Torres gerði sig sérstaklega sekan um að fara afar illa með dauðafæri hjá Liverpool og hefði sigurinn átt að vera að minnsta kosti helmingi stærri.

Stuðningsmenn Newcastle bauluðu á Steven Gerrard í upphafi leiks, en í síðari hálfleik losuðu þeir gremju sína á sína eigin leikmenn og stjórann Sam Allardyce - og ljái þeim hver sem vill eftir þessa ömurlegu frammistöðu heimaliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×