Enski boltinn

Wenger: Englendingar fljótfærir

Wenger lýsir yfir stuðningi sínum við McClaren
Wenger lýsir yfir stuðningi sínum við McClaren NordicPhotos/GettyImages

Arsene Wenger útilokar þann möguleika að taka við enska landsliðinu og gagnrýnir hvernig staðið var að uppsögn Steve McClaren í gær.

Honum þykir knattspyrnusambandið hafa brugðist harkalega við en kemur leikmönnum enska landsliðsins einnig til varnar.

"Mér finnst McClaren ekki hafa sýnt fram á að vera vanhæfur í starfið, en í þessu umhverfi er þolinmæðin ekki mikil. Mér finnst súrt að sjá að honum hafi verið sagt upp strax morguninn eftir leikinn og mér finnst að menn hefðu átt að gefa sér tvær vikur til að fara yfir stöðuna."

"Knattspyrnusambandið þarf að skoða mjög vandlega hvað fór úrskeiðis og reyna að finna lausnir á því. Það þýðir ekkert að rjúka til og ráða nýjan þjálfara og ætlast til þess að þá verð allt í lagi og liðið verði heimsmeistari árið 2010," sagði Wenger í samtali við Sun.

Hann ver líka leikmenn enska liðsins. "Mér finnst að menn ættu ekki að taka leikmennina af lífi, því það eru góðir leikmenn í enska liðinu.

Wenger útilokar að taka við enska landsliðinu, einfaldlega út af þjóðerni sínu. "Ef ég væri enskur, hefði ég sannarlega áhuga á starfi landsliðsþjálfara, en ég er það ekki - svo það þýðir ekkert að ræða það. Ég hef alltaf sagt að enski landsliðsþjálfarinn ætti að vera enskur," sagði Wenger og lýsti yfir stuðningi sínum við McClaren.

"McClaren er að mínu mati hæfur þjálfari, en það var eins og Englendingar tækju honum aldrei nógu vel. Hann hafði það sem til þurfti til að ná árangri en það var alltaf eins og þjóðin væri á bremsunni gagnvart honum. Hann hefði þurft meiri stuðning til að sýna fram á að hann væri rétti maðurinn í starfið," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×