Innlent

Brýnt að taka á vanda á húsnæðismarkaði

Borgarstjóri segir brýnt að taka á vanda þeirra sem standa hvað höllustum fæti á húsnæðismarkaði. Hann vill tryggja stöðu leigjenda og fjölga íbúðum hjá félagsbústöðum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri boðaði til aðgerða í húsnæðismálum þegar hann kynnti fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar í Ráðhúsinu í gær. Sagði hann ljóst að staðan á húsnæðismarkaðinum væri alvarleg og nauðsynlegt væri að forgangsraða til að hjálpa þeim standa hvað höllustum fæti.

Á síðustu tólf mánuðum hefur íbúðaverð í höfuðborginni hækkað um 17 prósent. Á sama tíma hafa vextir á íbúðalánum farið hækkandi sem og almennt leiguverð.

Þegar hafa 270 milljónir verið eyrnamerktar verkefninu en þeir peningar fást með því að breyta ekki fasteignaskatti þrátt fyrir hækkun fasteignarverðs á höfuðborgarsvæðinu.

Verður aðgerðunum beint sérstaklega að ungu fólki og eldri borgurum að sögn borgarstjóra. Borgaryfirvöld vinna nú með fulltrúum félagsmálaráðuneytisins í því að móta tillögur og segir borgarstjóri ekki tímabært að skýra nákvæmlega frá því í hverju aðgerðirnar séu fólgnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×