Innlent

769 milljónir í starfsmannamál borgarinnar

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson. MYND/valgarður

Dagur B. Eggertsson, nýr borgarstjóri Reykjavíkur, lagði í dag fram tillögur í borgarráði til aðgerða í starfsmannamálum borgarinnar. Gangi tillögur Dags eftir mun 769 milljónum króna verða veitt í þennan málaflokk á þessu ári og því næsta.

Tillögurnar gera meðal annars ráð fyrir því að hlunnindi starfsmanna í föstu starfi verði samræmd og að þeim standi til boða heilsuræktarstyrkir á árinu 2008 að upphæð kr. 16.000 m.v. fullt starf, sundkort, bókasafnskort, aðgangskort á söfn borgarinnar og að Fjölskyldu- og húsdýragarði. „Tilgangurinn er að tryggja að starfsmenn njóti jafnræðis og ekki sé gert upp á milli þeirra í þessum efnum með ómálefnalegum hætti," segir í tillögum borgarstjóra.

Þá er gert ráð fyrir því að tilteknum fjármunum, 20 milljónum á árinu 2007 og 180 milljónum á árinu 2008, verði úthlutað til „frístundaheimila, grunnskóla, leikskóla, hjúkrunarheimila og vegna heimaþjónustu og til annarra stofnana, sem glíma við undirmönnun, til að umbuna starfsmönnum sérstaklega vegna mikils álags í starfi. Foreldri ungra barna sem starfa hjá borginni verður einnig veitt forgangsvistun fyrir börn sín á leikskólum og frístundaheimilum.

Borgarstjórinn vill einnig að borgarráð veiti samninganefnd „heimild til að endurskoða ákvæði um starfsaldur í hlut¬aðeigandi kjarasamningum frá og með 1. janúar 2008 þannig að starfstími hjá ríki og öðrum sveitarfélögum í sambærilegum störfum verði metinn til jafns við starfstíma hjá Reykjavíkurborg."

Fimmta tillagan gengur út á að „frá 1. nóvember 2007 verði gert ráð fyrir fjármunum til leikskóla og hjúkrunarheimila vegna greiðslu til þeirra starfsmanna sem skylt er að matast með þjónustuþegum/nemendum og velja ekki styttri vinnutíma á móti."

Þá verði mannauðsskrifstofu í samvinnu við fagsvið borgarinnar falið að útfæra „tillögur um aðgerðir til að laða að fleiri starfsmenn, þ.á.m. eldri starfsmenn með betri ráðningarkjörum og lækkun vinnuskyldu, starfsmenn af erlendum uppruna með starfstengdri íslenskuþjálfun og námsmenn með tækifærum til starfsnáms meðfram vinnu í samstarfi við framhalds- og háskóla og með því að nýta betur tækifæri þeirra til að fá styrki úr starfsmenntunar- og starfsþróunarsjóðum vegna námsins."

Í tillögun er lögð áhersla á að fagsviðin reyni eftir föngum að skipuleggja störf og vinnutíma starfsmanna með það í huga að gera vinnustaði borgarinnar eftirsóknarverðari. „Einnig leggur borgarráð áherslu á góða stjórnunarhætti og hvetjandi starfsumhverfi sem eru forsenda fyrir árangursríku starfi."

Að endingu er samninganefnd Reykjavíkurborgar falið að „undirbúa markmið Reykjavíkurborgar vegna endurskoðunar á kjarasamningum á árinu 2008 til þess að gera Reykjavíkurborg að enn eftirsóknarverðari vinnustað."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×