Innlent

Rannsókn á meiðyrðum í Lúkasarmálinu í fullum gangi

Lúkas í fullu fjöri.
Lúkas í fullu fjöri.

Lögreglan er að rannsaka kæru Helga Rafns Brynjarssonar vegna Lúkasarmálsins svokallaða. Lögmaður Helga Rafns Brynjarssonar sem kært hefur 100 manns fyrir hótanir og meiðyrði í kjölfar þess að hann var sagður hafa drepið hundinn Lúkas á Akureyri í sumar segist hafa rætt við Jón HB Snorrason, yfirlögregluþjón í dag. Jón hafi fullvissað hann um að málið væri í rannsókn.

Á tímabili virtist sem málið hefði týnst í kerfinu þar sem ekki lá ljóst fyrir hvaða lögregluembætti væri með málið til rannsóknar. „Ég vona að rannsókninni verði hraðað sem kostur er því annars er hætta á að gögn tapist," segir lögmaður Helga Rafns í samtali við Vísi. Helgi Rafn hefur kært fólkið vegna hótanna og meiðyrða sem sett voru fram gegn honum á vefsíðum í kjölfar þess að sá kvittur komst upp að hann hefði drepið hundinn. Seinna kom Lúkas í leitirnar og amaði ekkert að honum.

„Samkvæmt orðum Jóns HB Snorrasonar í dag er rannsóknin í fullum gangi og ég verð bara að treysta því að svo sé," segir lögmaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×