Enski boltinn

Arsenal marði Sunderland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Philippe Senderos skoraði annað mark Arsenal snemma í leiknum.
Philippe Senderos skoraði annað mark Arsenal snemma í leiknum. Nordic Photos / Getty Images
Arsenal vann í dag nauman sigur á Sunderland, 3-2. Það var Robin van Persie sem skoraði sigurmark leiksins undir lokin en Sunderland hafði þá jafnað metin eftir að hafa lent tveimur mörkum undir.

Leikmenn Arsenal byrjuðu leikinn af miklum krafti. Það var einmitt van Persie sem skoraði fyrsta mark leiksins strax á sjöttu mínútu, beint úr aukaspyrnu. Um var að ræða bylmingsskot sem fór í slána og inn. Glæsilegt mark.

Aðeins nokkrum mínútum síðar bætir Philippe Senderos við marki sem kemur eftir fyrirgjöf Emmanuel Adebayor og klafs í teignum.

Flest lið hefðu vafalaust einfaldlega gefist upp eftir að hafa lent tveimur mörkum undir á fyrsta stundarfjórðungnum á heimavelli Arsenal. Svo var þó ekki.

Á 25. mínútu bjargar Manuel Almunia laglega frá Kenwyne Jones en Ross Wallace fylgir vel á eftir og kemur boltanum í netið. Þannig var staðan í hálfleik.

Það var svo strax á 48. mínútu að jöfnunarmarkið kom. Í þetta sinn brást Jones ekki bogalistin og skoraði með góðum skalla eftir fyrirgjöf Liam Miller.

En þá var eins og leikmenn Arsenal hafi vaknað af værum draumi og byrjuðu að sækja á ný. Kolo Toure átti þrumufleyg í samskeytin en van Persie kórónaði frábæran leik með því að skora sigurmarkið. Það kom á 80. mínútu eftir frábæran undirbúning Theo Walcott.

Undir lokin fékk Paul McShane, fyrirliði Sunderland, beint rautt spjald fyrir að brjóta heldur klunnalega á Alex Hleb. Kannski full harkalegur dómur en tæklingin var einfaldlega afar klunnaleg.

Í blálokin átti svo Walcott glæsilegt skot sem hafnaði í stöng Sunderland-marksins. En þar við sat og úrslitin klár.

Arsenal skaust aftur á topp ensku úrvalsdeildarinnar en liðið er með 22 stig eftir átta leiki.

Það er nokkuð ljóst að ef Liverpool og Manchester City vinna ekki sína leiki í dag eru Arsenal og Manchester United á góðri leið með að stinga af í deildinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×