Enski boltinn

Carragher: Engin krísa hjá Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jamie Carragher, leikmaður Liverpool.
Jamie Carragher, leikmaður Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Jamie Carragher, varnarmaður Liverpool, segir að sínir menn verði að koma sér upp úr þeim öldudal sem liðið er í. Það sé þó engin krísa hjá leikmönnum liðsins.

Liðið tapaði í vikunni fyrir Marseille á heimavelli í Meistaradeild Evrópu og liðið hefur aðeins skorað eitt mark í síðustu þremur leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

„Það verður erfitt en við erum búnir að koma okkur í slæma stöðu. Nú þurfum við að sýna karakter og þau gæði sem búa í liðinu til að koma okkur aftur á rétta braut," sagði Carragher.

Hann segir að þeir hafi einfaldlega spilað illa gegn Marseille. „Við komumst aldrei í gang í leiknum. Við verðum bara að viðurkenna að þetta var alls ekki nógu gott."

Liðið er með eitt stig í riðlinum í Meistaradeildinni. „En við eigum fjóra leiki eftir til að laga þetta ástand. Það er mikill þrýstingur á okkur en við verðum einfaldlega að takast á við það. Svo einfalt er það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×