Enski boltinn

Mourinho kennir Terry um

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mourinho og Terry voru á sínum tíma hinir mestu mátar.
Mourinho og Terry voru á sínum tíma hinir mestu mátar. Nordic Photos / Getty Images

Samkvæmt innanbúðarmanni The Guardian kennir Jose Mourinho fyrirliðanum John Terry um brotthvarf hans frá Chelsea.

The Guardian vitnar ekki í nafngreindan heimildamann en segist hafa frásagnir frá því hvað gerðist miðvikudaginn örlagaríka þegar Jose Mourinho hætti hjá Chelsea frá innanbúðarmanni.

Það hefur áður komið fram að John Terry hafi verið afar ósáttur við Mourinho daginn sem Chelsea mætti Rosenborg í Meistaradeildinni.

Mourinho mun hafa spurst fyrir um ástæður þess að John Terry hafi ekki staðið sig jafn vel á núverandi leiktíð og svo oft áður.

Terry tók ekki vel í það og mun hafa nánast hætt við að spila leikinn við Rosenborg hálftíma fyrir leik. Liðsfélagi hans kom honum þó í skilning um að byrja að hita upp og spila leikinn.

Það var svo John Terry sem tapaði návíginu við Miika Koppinen þegar Rosenborg komst yfir í leiknum.

Í hálfleik gagnrýndi Mourinho Terry mikið fyrir að hafa sofnað á verðinum. Terry neitaði að axla ábyrgð á markinu og hunsaði Mourinho algerlega.

Peter Kenyon var látinn vita af málinu og á krísufundinum á miðvikudaginn vildi hann meina að samkvæmt þessu væri Mourinho byrjaður að missa traust lykilleikmanna sinna.

Í kjölfarið bað félagið Mourinho um að segja upp störfum. Hann neitaði því og síðar sættust aðilar á að hann hætti samkvæmt samkomulagi þeirra.

Mourinho sendi síðan Terry SMS-skilaboð þar sem hann kaldhæðnislega þakkaði Terry fyrir að tala við yfirmenn félagsins.

Á föstudag hittust leikmenn á fundi sem John Terry kallaði til. Nokkrir leikmenn, svo sem Ashley Colo, Didier Drogba og Florent Malouda, gagnrýndu Terry fyrir að gera ekki nóg til að halda Mourinho hjá félaginu.

Grein The Guardian

The Observer: Tears, hugs and two icy handshakes  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×