Fótbolti

Aragones fær að kenna á því

Aragones er ekki vinsælasti maðurinn á Spáni þessa dagana
Aragones er ekki vinsælasti maðurinn á Spáni þessa dagana Mynd/Valli

Luis Aragones, landsliðsþjálfari Spánverja, fékk það óþvegið enn eina ferðina frá spænskum fjölmiðlum í dag eftir að hans menn þóttu ekki sérlega sannfærandi í 2-0 sigri á Lettum. Aragones talaði ekki við fjölmiðla eftir leikinn og það gerði ekkert annað en að skvetta olíu á eldinn.

"Niðurdrepandi" sagði fyrirsögn spænska blaðsins Marca í dag og bætti við að spænska liðið hefði unnið "sigur sem auðvelt væri að gleyma". Orðrómur fór brátt á flug um að Aragones hefði hreinlega sagt af sér, en spænska knattspyrnusambandið leiðrétti það.

"Luis er ekki búinn að segja af sér og ákvörðun hans um að mæta ekki á blaðamannafund var tekin af persónulegum ástæðum. Það getur enginn neytt hann til að mæta á blaðamannafund," sagði talsmaður sambandsins.

Fernando Torres skoraði annað mark Spánverja í gær og var það fyrsta mark hans fyrir liðið í eitt ár. Xavi var líka á skotskónum í leiknum, en spænska liðið þótti ósannfærandi og bauluðu áhorfendur á liðið. Næsti leikur spænskra er gegn Dönum á útivelli í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×