Fótbolti

Worthington: Veðrið er fínt á Íslandi

Worthington hefur ekki áhyggjur af kulda og rigningu á Íslandi
Worthington hefur ekki áhyggjur af kulda og rigningu á Íslandi NordicPhotos/GettyImages

Nigel Worthington, landsliðsþjálfari Norður-Íra, segir sína menn vera klára í slaginn óháð veðurskilyrðum eða öðru þegar lið hans mætir Íslendingum á Laugardalsvellinum annað kvöld. Hann krefst þess að leikmennirnir svari vonbrigðunum í síðasta leik og hirði öll stigin gegn Íslendingum.

Norður-Írar töpuðu 1-0 fyrir Lettum á sjálfsmarki Chris Baird fyrirliða um helgina og setti tapið stórt strik í reikninginn fyrir liðið í baráttunni um sæti á EM næsta sumar. "Góðir leikmenn verða ekki lélegir á einum degi og ein slæm frammistaða gerir gott lið ekki lélegt," sagði Worthington, sem hefur ekki áhyggjur af slæmri veðurspá heldur.

"Mér finnst veðrið hérna fínt og mér er alveg sama hvernig það verður í leiknum. Við verðum tilbúnir," sagði landsliðsþjálfarinn. Miðjumaðurinn Chris Brunt segir að leikmennirnir séu staðráðnir í að gera betur en í Riga á laugardaginn.

"Strákarnir ætla sannarlega að standa sig betur en í síðasta leik þar sem við fengum á baukinn. Við verðum að ná í fullt hús stiga hérna eftir það sem gerðist í Riga og ná að þjappa okkur saman. Það yrði frábært afrek ef við  næðum á EM," sagði Brunt.

Svíar eru í efsta sæti riðilsins með 19 stig, Norður-Írar eru í öðru sæti og þá koma Spánverjar með 16 stig í þriðja sætinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×