Fótbolti

Hiddink á ekki von á að Englendingar vinni riðil sinn

NordicPhotos/GettyImages

Hollendingurinn Guus Hiddink, landsliðsþjálfari Rússa, segist ekki reikna með því að Englendingar nái upp úr riðli sínum í undankeppni EM. Hiddink mætir Englendingum á Wembley á miðvikudaginn og segist eiga von á því að þau þrjú lið sem eru í efstu sætunum í dag berjist um sigur í riðlinum.

Breskir fjölmiðlar halda því fram að Hiddink sé enn súr út í enska knattspyrnusambandið fyrir að bjóða sér ekki starf landsliðsþjálfara þegar Sven-Göran Eriksson hætti, en Hiddink var þess í stað boðið að sækja um starfið. Það þótti umboðsmanni Hollendingsins vera vanvirðing við þjálfara með jafn gott orðspor í heimsknattspyrnunni.

Lærisveinar Hiddink, Rússar, eru í öðru sæti E-riðilsins með 18 stig, Króatar eru á toppnum með 20 stig og Englendingar og Ísraelar hafa 17 stig í 3-4 sæti - þar sem Ísrael hefur leikið einum leik meira en hinar þjóðirnar.

"Þetta er gríðarlega erfiður riðill og ég held að þessar þrjár efstu þjóðir muni berjast um sigurinn. Ég vildi óska þess að Englendingar næðu á EM af því það er alltaf best að hafa stórþjóðir eins og Englendinga með á stórmótum, en það er ekki hægt að horfa framhjá Króötum. Þeir eru með reynt lið og tapa ekki mörgum stigum," sagði Hiddink.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×