Fótbolti

Keltabikarinn gæti byrjað á næsta ári

Keltabikarinn, fyrirhugað knattspyrnumót liða frá Skotlani, Wales, Írlandi og Norður-Írlandi, gæti orðið að veruleika strax á næsta ári að mati Gordon Smith, yfirmanns skoska knattspyrnusambandsins.

Fulltrúar þjóðanna hittust í Cardiff í vikunni og svo virðist sem menn hafi komið jákvæðir út úr þeim fundarhöldum. Alex McLeish, landsliðsþjálfari Skota er einn þeirra sem hefur gefið grænt ljós á mótið og Gordon Smith sér fátt til fyrirstöðu.

"Ég er búinn að tala við McLeish og hann tekur vel í þetta. Við tókum þátt í ekki ósvipuðu móti í Japan á síðasta ári og okkur þykir líklegt að hægt væri að koma þessu á fót á næsta ári - eða árið eftir það í síðasta lagi - ef allir taka vel í þessar hugmyndir."

Ekki hefur verið ákveðið hvort keppt yrði með útsláttarfyrirkomulagi á mótinu eða hvort um deildarkeppni yrði að ræða, en talsmenn þjóðanna eru sagðir nokkuð jákvæðir. Þá á enn eftir að ákveða hvort keppnin fer fram á hverju ári eða annað hvert ár, en síðari möguleikinn þykir líklegri og þá færu leikirnir líklega fram í landsleikjahléum í ágúst, nóvember og febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×