Erlent

Gíslar fara heim á leið í dag

Þórir Guðmundsson skrifar
Kóresku konurnar nítján eru lausar en geta búist við kuldalegum móttökum í heimalandinu.
Kóresku konurnar nítján eru lausar en geta búist við kuldalegum móttökum í heimalandinu. Mynd: AP

Talibanar í Afganistan hafa nú leyst síðustu suður-kóresku gíslana sína úr haldi og búist er við að gíslarnir fljúgi heim í dag.

Ættingjar gíslanna nítján fylgdust með í sjónvarpi þegar myndir frá Afganistan sýndu svo ekki varð um villst að Talibanar höfðu leyst þá alla úr haldi. Um er að ræða nítján konur sem voru í haldi Talibana síðan um miðjan júlí.

Talibanar myrtu tvo karlmenn í hópnum og létu tvær veikar konur lausar fyrr í þessum mánuði. Stjórnvöld í Suður-Kóreu sömdu við mannræningjana og lofuðu meðal annars að kalla heri sína heim frá Afganistan fyrir árslok.

Embættismenn í Afganistan segja að Suður-Kóreustjórn hafi líka borgað lausnargjald, rúmlega 120 milljónir króna, en það hefur ekki verið staðfest.

Þó að gleði ættingja gíslanna sé fölskvalaus þá er búist við að þeir fái fremur kuldalegar kveðjur við komuna til Suður-Kóreu. Þeir hunsuðu beiðni yfirvalda sem höfðu ráðlagt þeim að fara ekki til Afganistans á sínum tíma - og ef rétt er að lausnargjald hafi verið greitt fyrir fólkið þá þykir það stefna öðrum útlendingum í Afganistan í hættu - ekki síst öðrum útlendingum sem nú eru í haldi mannræningja þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×