Innlent

Vilja einkaleyfi á orðið Þuklaraball

Arnar S. Jónsson sýnir snilli sína í hrútaþukli.
Arnar S. Jónsson sýnir snilli sína í hrútaþukli.

Um næstu helgi verður haldin stórhátíð í Sauðfjársetinu í Sævangi á Ströndum með tilheyrandi hrútaþukli og landskeppni í ullarspuna. Um kvöldið verður svo þuklaraballið haldið í félagsheimilinu á Hólmavík. Arnar S. Jónsson framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins segir að þar á bæ ætli menn að fá sér einkaleyfi á orðinu þuklaraball svipað og gerst hefur með Húkkaraballið í Eyjum.

Að sögn Arnars er Þuklaraballið nú haldið í fyrsta sinn og ekki vitað hvernig til tekst. "Ætli menn verði bara ekki að þreifa sig áfram með þetta á ballinu," segir Arnar. Hátíð hefst á sunnudag og mun sjónvarpsmaðurinn kunni, Gísli Einarsson, stjórna veisluhöldum.

Þetta er í fjórða sinni sem meistaramót í hrútaþukli fer fram en keppnin er í stuttu máli þannig að Jón Viðar Jónmundsson ráðunautur fer fyrir dómnefnd sem metur fjóra íturvaxna hrúta með öllum nútíma tækjum og tólum og raðar þeim í gæðaröð fyrirfram. Síðan eiga keppendur að reyna sig við matið á hrútunum með hendurnar og hyggjuvitið að vopni og komast að sömu niðurstöðu og dómararnir.

Í keppninni "Ull í fat" keppa fimm lið víðs vegar að af landinu um hvert þeirra er fljótast að koma ull í fat á sem stystum tíma. Kindur verða rúnar á staðnum og ullin af þeim spunnin í band sem liðin eiga síðan að prjóna lambhúshettu úr. Sérvalin dómnefnd dæmir um hraða, vinnubrögð, útlit og samvinnu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×