Innlent

Tveir þriðju presta vilja fá heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra

Hart var tekist á um heimild presta til að staðfesta samvist samkynhneigðra á Prestastefnu í vor.
Hart var tekist á um heimild presta til að staðfesta samvist samkynhneigðra á Prestastefnu í vor.

Liðlega 65 prósent starfandi presta í Þjóðkirkjunni eru fylgjandi því að prestum innan kirkjunnar verði veitt heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra. Þetta kemur fram í viðhorfskönnun sem fyrirtækið Outcome gerði fyrir Biskupsstofu í júní og júlí.

Alls voru rúmlega 52 prósent svarenda í könnunninni mjög hlynnt því að Kirkjuþing samþykkti að veita prestum þessa heimild en og tæp 13 prósent voru frekar hlynnt því. Fimmtungur var hins vegar mjög andvígur og um 6,5 prósent frekar andvíg.

Í sömu könnun var spurt hvort líklegt væri að prestar myndu nýta sér þessa heimld og þá svöruðu 63 prósent því til að mjög líklegt eða frekar líklegt væri að þeir myndu gera það. Um fjórðungur taldi mjög ólíklegt eða frekar ólíklegt að þeir myndu nýta sér heimild til að gefa saman samkynhneigða.

Fram kemur í tilkynningu frá Biskupsstofu að ráðist hafi verið í könnunina eftir Prestastefnu í apríl síðastliðnum en þar var lögð fram tillaga um að prestum Þjóðkirkjunnar yrði heimilað að vera lögformlegir vígslumenn staðfestrar samvistar á grundvelli álits kenningarnefndar Þjóðkirkjunnar. Tillögunni var vísað til kenningarnefndar en Prestastefna samþykkti jafnframt ósk um að könnun um hug presta til þessarar þjónustu yrði framkvæmd.

Ný ríkisstjórn hefur ákveðið samkvæmt stjórnarsáttmála að veita trúfélögum heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra. Því þótti rétt að miða spurningar við það. Með hliðsjón af stjórnarsáttmálanum var spurt: Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að Kirkjuþing samþykki að prestum Þjóðkirkjunnar verði veitt sú heimild?

Athygli vekur að tæplega 80 prósent kvenpresta í hópi svarenda eru mjög eða frekar hlynntir því að Kirkjuþing samþykki að prestum Þjóðkirkjunnar verði veitt sú heimild og rúmlega 59 prósent karlpresta. Prestar sem hafa unnið 15 ár eða skemur eru bæði hlynntari þessu og líklegri til þess að nota heimildina.

Upphaflegt úrtak í könnuninni var 144, 108 tóku þátt í könnuninni og var svarhlutfall 75 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×