Innlent

5 milljarðar í skip og flugvélar á síðasta ári

Sighvatur Jónsson skrifar

Íslenska ríkið keypti skip og flugvélar fyrir 5 milljarða króna á síðasta ári, sem nam um 30 prósentum af kaupum ríkisins. Mestu var tilkostað í kaup á ferjum og rannsóknarskipum. Samkvæmt nýútkomnum ríkisreikningi nema eignir ríkisins 11 prósentum af eignum Kaupþings.

Í ríkisreikningi má meðal annars sjá hvað ríkið keypti af samgöngutækjum, húsgögnum og áhöldum á síðasta ári.

Flestar fóru krónurnar í skip og flugvélar, 5 milljarðar. Liðurinn nemur 30 prósentum, og fóru 1,7 milljarðar í rannsóknaskip og 1,4 í ferjur, en að undanförnu hefur verið til umræðu að kostnaður við nýja Grímseyjarferju hafi farið fram úr áætlunum.

Þrír og hálfur milljarður fór í húsgögn og skrifstofubúnað, þar eru tölvur stærsti útgjaldaliðurinn, sem nemur einum og hálfum milljarði. Á síðasta ári var jafn miklu varið í húsgögn og skrifstofubúnað, og í lækninga- og rannsóknatæki, þremur og hálfum milljarði.

Bílakaup ríkisins námu 1,8 milljörðum króna, og litlu minna fór í áhöld og tæki. Milljarður var settur á liðinn aðrar eignir, meðal annars listaverkakaup uppá hundrað og þrjátíu milljónir. Minnstu var varið í vinnuvélar og tæki, um hálfum milljarði króna.

Þetta var keypt á síðasta ári. En sé litið á heildareigur ríkisins, voru þær metnar á 467 milljarða króna í árslok 2006 - sem er 11 prósent af eigum Kaupþings á sama tíma, sem voru metnar á rúma fjögur þúsund milljarða króna. Eftir kaup Kaupþings á hollenska bankanum NIBC á dögunum eru eigur bankans metnar á um sjö þúsund milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×