Innlent

Starfshópur fer yfir lög um gjaldtöku fjármálafyrirtækja

MYND/Pjetur

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur skipað starfshóp sem fær það verkefni að skoða ýmsa gjaldtöku fjármálafyrirtækja og lagaumhverfi tengda henni, þar á með svokallaðan fit-kostnað bankanna og seðilgjöld.

Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu er starfshópnum ætlað að fara yfir lög og reglur sem lúta að heimildum fjármálafyrirtækja til gjaldtöku, sérstaklega að ýmsum gjöldum sem fjármálafyrirtæki krefjast fyrir þjónustu sína og forsendur þeirra, s. s. greiðslum ef neytendur fara yfir á reikningum sínum (fit-kostnaði), seðilgjöldum, innheimtukostnaði og kostnaði við greiðslukort.

Hlutverk starfshópsins verður jafnframt að meta hvort ástæða sé til að lögfesta frekari reglur um notkun rafrænna greiðslukerfa. Starfshópurinn á að skila skýrslu og drögum að lagafrumvarpi fyrir 1. janúar á næsta ári.

Í nefndinni munu eiga sæti:

Sigríður Rafnar Pétursdóttir, lögfræðingur, formaður

Axel Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður

Gísli Tryggvason, Talsmaður neytenda

Þá verður óskað eftir tilnefninum frá Neytendastofu, Samtökum fjármálafyrirtækja og Fjármálaeftirlitinu í starfshópinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×