Innlent

Kæru Landverndar vegna vatnslagnar í Heiðmörk vísað frá

Björn Gíslason skrifar
MYND/Daníel R.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefur vísað frá kæru Landverndar í tengslum við útgáfu framkvæmdaleyfa vegna framkvæmda við vatnslögn um Heiðmörk. Kærunni er vísað frá á þeim grundvelli að Landvernd eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu.

Landvernd kærði málið fyrr á árinu í tengslum við deilur um lagningu vatnslagnarinnar sem felur í sér mikið jarðrask. Fóru samtökin fram á það að framkvæmdaleyfi sem Kópavogur, Reykjavík og Garðabær gáfu út vegna vatnslagnarinnar yrðu felld úr gildi, meðal annars á þeim grundvelli að framkvæmdin væri háð breytingu á aðalskipulagi sem ekki hefði enn verið gerð. Þá var jafnframt vísað til skógræktarlaga, laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög um náttúruvernd.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála komst hins vegar að því að hvergi í lögum væri að finna heimild fyrir því að samtök eins og Landvernd ættu aðild að kærumálum á sviði skipulags- og byggingarmála án þess að eiga jafnframt þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni sem að stjórnsýslurétti eru taldir skilyrði aðildar að kæru til æðra stjórnvalds. Hefðu samtökin ekki sýnt fram á að þau ættu neinna hagsmuna að gæta sem verið gætu grundvöllur aðildar málinu samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins.

Úrskurðarnefndin vísaði sams konar kærur frá Náttúruverndarsamtökum Íslands frá fyrr á árinu með sömu rökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×