Innlent

Munum kanna sannleiksgildi frásagnar konunnar

Jóhann Benediktson: Alvarlegt mál ef frásögn konunnar á við rök að styðjast.
Jóhann Benediktson: Alvarlegt mál ef frásögn konunnar á við rök að styðjast.

Jóhann Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að embættið muni nú kanna sannleiksgildi sögu konunnar sem segir að sér hafi verið smyglað til landsins með fraktflugvél. „Ef sagan á við rök að styðjast er hér um mjög alvarlegt mál að ræða,“ segir Jóhann.

Ítarlega er greint frá máli þessu í Morgunblaðinu í dag. Þar segir konan, sem er frá Venesúela, að þáverandi kærasti hennar, flugstjóri á íslenskri fragtflugvél, hafi smyglað sér til landsins. Flugstjórinn hafi látið hana ganga út af flugvellinum í gegnum starfsmannaútgang í stað þess að fara í gegnum vegabréfaskoðun.

„Enn sem komið er byggir fréttin á einhliða frásögn konunnar," segir Jóhann. „Því viljum við kanna sannleiksgildi hennar áður en við grípum til frekari aðgerða. Það liggur ljóst fyrir að við treystum flugstjórum mikið og þeir hafa ríkan aðgang að flugvallarsvæðinu.“

Konan hefur síðan hætt samvistum við flugstjórann og sótt um dvalarleyfi í landinu. Útlendingastofnun hefur mál hennar nú til meðferðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×