Innlent

Tekinn drukkinn undir stýri - utan við Reykjavíkurhöfn

MYND/GVA

Siglingar tveggja báta voru stöðvaðar utan við Reykjavíkurhöfn um miðnætti í gær. Engin haffærisskírteini voru til staðar að sögn lögreglu, en skipstjóri annars bátsins var jafnframt undir áhrifum áfengis.

Varðskipsmaður sá um að sigla fleyi hans til hafnar en umræddur skipstjóri var sömuleiðis án skipstjórnarréttinda.

Þá voru tólf ökumenn teknir á þurru landi fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. Lögregla stöðvaði fimm í miðborginni og jafnmarga í austurborginni. Tveir voru teknir fyrir sömu sakir í Kópavogi.

Meirihluti ökumannanna er á þrítugsaldri en þetta voru ellefu karlar og ein kona, að því er lögregla greinir frá.Þá voru þrír karlar stöðvaðir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Átján umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í gær og nótt, nær öll minniháttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×