Innlent

Tugir fatlaðra barna bíða eftir þjónustu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar.
Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar.
Tugir barna bíða þess að komast í lengda viðveru í Öskjuhlíðaskóla. Ástæðan er sú hversu erfitt er að ráða starfsfólk. Ragnheiður Sigmarsdóttir, formaður foreldrafélags Öskjuhlíðaskóla, segir ástandið í fyrra hafi verið erfitt fyrir marga foreldra og vonar að það endurtaki sig ekki núna.

„Ég er heppin því ég hætti alltaf í vinnu um tvöleytið. En það eru ekkert allir sem geta fengið frí úr vinnu til að sinna börnunum sínum. Það eru ekkert allir vinnuveitendur sem hafa skilning á aðstæðum foreldra. Og börnin í Öskjuhlíðaskóla geta ekkert gengið um með lykla um hálsinn og séð um sig sjálf," segir Ragnheiður

Ragnheiður vill að starf með fötluðum börnum verði metið í skólastarfi. „Ég sé til dæmis fyrir mér að nemendur í Kennaraháskóla Íslands geti fengið starf í Öskjuhlíðaskóla metið til eininga," segir hún.

Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar, segir að lítið sé hægt að gera við skorti á starfsmönnum. Hann segir að að auðvelt sé að fást við vandamál sem tengist stjórnvöldum. „Þá getur maður talað við stjórnmálamenn sem eiga í hlut og sett þrýsting á þá. Hins vegar er lítið hægt að gera þegar markaðurinn er einfaldlega þannig að fólk leitar í önnur störf, " segir Friðrik.

Friðrik vill að meira verði gert til þess að gera störf með fötluðum eftirsóknarverð. Til dæmis með því að hækka laun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×