Innlent

Talningarfólk á kosninganótt hefur enn ekki fengið greitt

Ríkarður Másson sýslumaður: Ákaflega bagalegt að greiðslurnar hafa ekki borist.
Ríkarður Másson sýslumaður: Ákaflega bagalegt að greiðslurnar hafa ekki borist.

Talningafólk á kosninganótt í Norðvesturkjördæmi hefur enn ekki fengið greitt fyrir vinnu sína þótt þrír mánuðir séu liðnir frá síðustu alþingiskosningum. "Þetta er því miður rétt og ákaflega bagalegt," segir Ríkarður Másson sýslumaður á Sauðárkrók en hann er aðalmaður í yfirkjörstjórn kjördæmisins. "Hér er um úrvalsfólk að ræða og margt þeirra hefur unnið fyrir okkur í mörgum kosningum.

Svo virðist sem upplýsingar um greiðslur til þessara einstaklinga séu týndar í kerfinu. Ríkarður Másson segir að upplýsingar um greiðslur til talningafólksins hafi farið næstum samdægurs frá yfirkjörstjórn til dómsmálaráðuneytisins. Frá ráðuneytinu áttu upplýsingarnar svo að berast Fjársýslu ríkisins til útborgunnar.

Ríkarður segir að hann hafi haft samband við Fjársýslu ríkisins vegna málsins en ekki fengið skýr svör um málið. Er Vísir hafði samband við Fjársýsluna var sagt að svo virtist sem upplýsingarnar hafi ekki borist frá ráðuneytinu. Og ekki hafi tekist að fá nánari skýringar á því þar sem viðkomandi starfsmaður dómsmálaráðuneytisins væri í sumarfríi.

Einn þeirra talningarmanna sem Vísir hafði samband við, og vann þessa nótt segir málið allt hið furðulegasta. Þetta hafi verið ein lengsta nóttin af öllum talningarstöðum á landinu eða frá því kl. 19 að kvöldi og framundir kl. 9 næsta morgun. Upphæðin væri kannski ekki ýkja há en það væri fyrir neðan allar hellur að bíða í þrjá mánuði eftir að fá hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×